Upplýsingar fyrir foreldra

Á þessari síðu eru upplýsingar fyrir foreldra barna sem hefur verið vísað til sálfræðiþjónustu heilsugæslunnar. 

Þjónusta sálfræðings barna á heilsugæslu felur í sér ráðgjöf, mat og meðferð á vægum til miðlungs alvarlegum tilfinninga- og hegðunarvanda barna og unglinga frá 6-18 ára.


Matslisti

Til að hægt sé að leggja mat á vanda og viðeigandi þjónustu er fyrsta skrefið að fylla út matslistann hér að neðan.

Markmiðið með þessari upplýsingaöflun er að fá góða mynd af bakgrunni, styrkleikum og veikleikum barns og áhyggjuefnum umönnunaraðila. Vönduð útfylling auðveldar mat á vanda og val á mögulegum úrræðum. Forvarnar- og meðferðarteymi barna (FMTB) tekur við tilvísunum og metur þær fljótlega eftir móttöku.

Hægt er að vista listann í eigin tölvu, fylla út rafrænt, vista og senda í gegnum örugg gagnaskil.  Einnig  má prenta út listann, fylla út og skila í afgreiðsluna á heilsugæslunni þinni 

Matslisti vegna tilvísunar til sálfræðiþjónustu barna (vefslóð)

Örugg gagnaskil (Signet transfer)

Best er ef útfyllt eyðublöð eru send rafrænt í gegnum signet transfer. Sendendur þurfa að vera skráðir notendur. Smella á tengilið hér fyrir neðan, skrá sig inn með rafrænum skilríkjum, velja fyrirtæki Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Sálfélagsleg þjónusta, skrá í athugasemd Ragnhildur Magnúsdóttir. Draga skjal inná viðeigandi reit og senda.

 

Næstu skref

Sálfræðingur metur upplýsingar á matslista.

Ef sálfræðiþjónusta HSS er talin besta úrræðið fyrir barnið fer það á biðlista og foreldrar fá upplýsingar í gegnum Heilsuveru. Ef önnur úrræði eiga frekar við, er haft samband við foreldra símleiðis og rætt um næstu skref. Mikilvægt er að foreldrar fylgist með skilaboðum í heilsuveru og staðfesti móttöku bréfa þar.

 

Virkur biðtími

Það getur verið bið eftir þjónustu sálfræðinga barna í heilsugæslu. Á meðan biðtíma stendur, hvetjum við foreldra til að skoða „Bjargráð á biðtíma“ sem inniheldur ýmis úrræði á biðtíma, gagnlegar upplýsingar, fræðslu- og sjálfshjálparefni. Á meðan biðtíma stendur er einnig hægt að hafa samband við heilsugæslulækni. 

Haft verður samband þegar komið er að ykkur á biðlistanum.  


Í neyðartilfellum

Vinsamlega hafið samband beint við bráðateymi BUGL í síma 543-4300 eða neyðarlínuna 112 ef áhyggjur eru af öryggi barns og/eða ef  sjálfsvígshætta er yfirvofandi.





Aðalnúmer

422-0500

Grindavík

422-0750

Vaktsími eftir lokun

1700

Neyðarnúmer

112