Hallgrímur Kjartansson nýr læknir á HSS

mánudagur, 23. nóvember 2020
Hallgrímur Kjartansson nýr  læknir á HSS

Hallgrímur Kjartansson læknir hóf nýlega störf á heilsugæslu HSS. Hallgrímur hefur starfað sem læknir um árabil, lengst af á heimaslóðum sínum á Ísafirði og víðar á Vestfjörðum.

Hallgrímur var yfirlæknir heilsugæslu Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða á Ísafirði til 2004. Næstu tvö ár leysti hann af í heilsugæslum í Noregi, Svíþjóð og á Patreksfirði og var í framhaldinu ráðinn yfirlæknir og framkvæmdastjóri lækninga á Heilbrigðisstofnun Patreksfjarðar sem þjónaði suðursvæði Vestfjarða.

Við sameiningu Heilbrigðisstofnunar Patreksfjarðar og Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða árið 2015 tók hann við stöðum yfirlæknis heilsugæslusviðs og framkvæmdastjóra lækninga við stofnunina og gegndi þeim stjórnunarstörfum til 2019.

Við tók almenn heilsugæsla á ný en haustið 2020 fluttist hann svo með fjölskyldu sína til Hafnarfjarðar og tók við stöðu heilsugæslulæknis á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

HSS er mikill fengur að Hallgrími og er hann boðinn hjartanlega velkominn til starfa.