Til hvaða ráðstafana er verið að grípa til á Íslandi gegn mislingum?

miðvikudagur, 6. mars 2019
Til hvaða ráðstafana er verið að grípa til á Íslandi gegn mislingum?

Vegna frétta um mislingasmit á Íslandi og allnokkurra fyrirspurna til heilsugæslu HSS er rétt að vekja athygli á eftirfarandi frétt af vef Embættis landlæknis

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum þá hafa fjórir einstaklingar greinst með mislinga á Íslandi á þessu ári, tveir fullorðnir og tvö börn og heilsast öllum vel. Allir einstaklingarnir voru óbólusettir eftir því sem best er vitað og smituðust allir í flugi Air Iceland Connect þann 15.2.2019. Þetta sýnir að mislingar eru mjög smitandi og smitast auðveldlega á milli einstaklinga við litla snertingu.

Sóttvarnalæknir, í samvinnu við heilsugæsluna, Landspítala, Læknavaktina og fleiri aðila, hefur unnið að eftirfarandi sóttvarnaráðstöfunum sem miða að því að hindra frekari dreifingu sýkingarinnar:

  1. Sóttkví. Allir einstaklingar sem eru óbólusettir og komist hafa í snertingu við mislingasmit eru beðnir um að halda sig heima frá degi 6 til dags 21 eftir smit. Á þessum tíma geta veikindi komið fram og eru einstaklingar þá smitandi og verða reyndar smitandi um einum sólahring áður en veikindin byrja. Ekki þarf að setja bólusetta einstaklinga í sóttkví.
  2. Bólusetning gegn mislingum. Ef einstaklingur sem verður fyrir smiti er bólusettur innan 72 klst. frá smiti þá eru góðar líkur á því að einstaklingurinn veikist ekki.
    Mælt er með bólusetningu óbólusettra fjölskyldumeðlima þeirra sem komast í snertingu við mislingasmit því það mun koma í veg fyrir áframhaldandi útbreiðslu. 
    Bólusetningu má gefa börnum allt niður í 6 mánaða aldur en árangurinn er ekki alveg ótvíræður á aldrinum 6–12 mánaða og þarf því að bólusetja þessi börn aftur við 18 mánaða aldur.
  3. Meðhöndlun veikra. Ef einstaklingar telja sig eða börn sín geta verið veik af mislingum þá er fólk beðið um að koma ekki beint á heilsugæslustöðvar eða sjúkrahús heldur hafa fyrst samband símleiðis í síma 1700 eða við sína heilsugæslustöð. Þar fær fólk ráðleggingar og mun sjá um að senda lækni heim til viðkomandi ef ástæða þykir til, til að greina og staðfesta sýkinguna. Einnig verður hægt að senda viðkomandi á sjúkrahús til meðferðar samkvæmt fyrirfram ákveðnum leiðbeiningum sem gefnar verða.
  4. Upplýsingar um mislinga og mislingasmit. Til að fá upplýsingar um mislinga og mislingasmit má hringja í síma 1700 og einnig til heilsugæslustöðva.

Sóttvarnalæknir telur litlar líkur á útbreiddum faraldri hér á landi ef öllum ofangreindum varúðarráðstöfunum verður fylgt. Að auki er rétt að benda á að almenn þátttaka í bólusetningum hér á landi er um 90−95% sem á að duga til að koma í veg fyrir útbreiddan faraldur.