Ný röntgendeild opnuð á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja

laugardagur, 9. apríl 2022
Ný röntgendeild opnuð á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja

Þann 7. apríl síðastliðinn var ný röntgendeild opnuð formlega á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Viðstaddir opnunina voru, meðal annarra, Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, Alma Möller landlæknir, Fannar Jónasson bæjarstjóri Grindavíkurbæjar, Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Magnús Stefánsson bæjarstjóri Suðurnesjabæjar og Ásgeir Eiríksson bæjarstjóri í Vogum.

Með nýju röntgendeildinni er fyrsta áfanga í endurbótum á HSS lokið en unnið er að framtíðaruppbyggingu sem miðar að því að efla þjónustu við Suðurnesjabúa. Segja má að með nýrri röntgendeild hafi orðið bylting í bæði starfsaðstöðu og tækjabúnaði, en samhliða opnuninni var tekið í notkun glænýtt röntgentæki sem leiðir til betri myndgæða og hraðari þjónustu. Þá er enn fremur vert að minnast á að einnig er stefnt á að taka í notkun nýtt sneiðmyndatæki síðar á árinu.

Markús Ingólfur Eiríksson, forstjóri HSS sagði daginn marka ákveðin tímamót. "Þetta eru mikil tímamót fyrir okkur að við séum að taka í notkun fyrsta áfanga af mörgum, vonandi, sem er liður í því að byggja upp innviði stofnunarinnar þannig að hún geti fengist við þau verkefni sem henni er ætlað að sinna á komandi árum. Þetta kennir okkur það að fjárfesting í innviðum er mjög fljót að borga sig til baka í bættri þjónustu, bættri starfsaðstöðu og þá sjáum við fyrir okkur að verða eftirsóknarverðari vinnustaður. Það mun draga úr álagi á þá fáu sem standa vaktina í dag og það mun leiða til bættrar þjónustu.“ Markús sagði enn fremur að það væri mjög góð nýting á skattfé að vera með öfluga innviði. Endaði Markús tölu sína á orðum sem margir gátu tekið undir; „Ég er smá klökkur og sjálfur er ég varla búinn að melta það að við séum þegar að taka í notkun nýjan áfanga.“  

Alma Möller landlæknir sagði að það væri mjög ánægjulegt að sjá að tekið hefði verið til hendinni á HSS í kjölfar mikillar fólksfjölgunar á Suðurnesjum. „Það hefur verið mjög ánægjulegt að skynja skilning og stuðning forstjóra, framkvæmdastjórnar og starfsfólks til umbóta en það er auðvitað mikilvægt að skilja að umbætur taka tíma og að þeim líkur í rauninni aldrei. Fyrst og síðast þarf að efla mönnun eins og víðar í heilbrigðiskerfinu og ég veit að þið vinnið að því hörðum höndum.“ Alma Möller hvatti að lokum HSS til að halda áfram á þessari vegferð að efla þjónustu, gæði og öryggi.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, benti á að þetta væri einnig umhverfismál: „Við drögum úr álagi á Reykjanesbrautinni, þetta minnkar kolefnissporið að þurfa ekki að fara til Reykjavíkur í myndatöku í öll þessi skipti. Þannig að það er hægt að tikka í mörg box með þessari aðgerð. Þannig að við erum bara mjög sátt og þakklát, heimamenn.“

Jórunn Garðarsdóttir, deildarstjóri röntgendeildar HSS sagði frá því hversu mikil breyting er fólgin í nýrri starfsaðstöðu og nýjum tækjum; „Hér erum við komin í nýtt húsnæði og erum alsæl. Eins og þið sjáið er búið að setja upp þetta glæsilega Philips röntgentæki sem er af nýjustu og bestu gerð og hefur reynst mjög vel. Nú þurfum við ekki að burðast með kasettur fram og til baka. Nú stillum við sjúklingnum inn, ýtum á takka og myndirnar birtast í tölvunni. Hönnunin á rýminu er öll til fyrirmyndar og mjög auðvelt að athafna sig með sjúklingana“. Jórunn sagði einnig frá því að á HSS eru framkvæmdar á milli sex og sjö þúsund myndrannsóknir á ári og eiga þær eftir að aukast enn meira með tilkomu nýs sneiðmyndatækis sem von er á síðar á árinu.

Við tilefnið var Jórunn heiðruð fyrir störf sín í þágu HSS en hún er að láta af störfum eftir aldarfjórðung á stofnuninni. Við þökkum Jórunni hjartanlega fyrir samferðina á liðnum árum og óskum henni velfarnaðar í því sem hún tekur sér fyrir hendur.

Framundan eru framkvæmdir við nýja slysa- og bráðamóttöku HSS. Röntgendeildin er mikilvægur þáttur í þeirri þjónustu og eru því bundnar vonir við að hliðstæð efling bráðamóttökunnar muni leiða til aukinnar skilvirkni og betri þjónustu.