Niðurstöður þjónustukönnunar fyrir HSS: Ýmis tækifæri þrátt fyrir erfiða stöðu

föstudagur, 25. janúar 2019
Niðurstöður þjónustukönnunar fyrir HSS: Ýmis tækifæri þrátt fyrir erfiða stöðu

Viðhorf þeirra sem þiggja heilbrigðisþjónustu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) er almennt jákvætt þegar horft er til einstakra deilda og þjónustuþátta, en er síður jákvætt þegar horft er til stofnunarinnar í heild. 

Þetta kemur fram í niðurstöðum þjónustukönnunar sem Capacent gerði fyrir HSS fyrr í vetur, en Halldór Jónsson forstjóri kynnti niðurstöðurnar á starfsmannafundi fyrir helgi.

Alls tóku 837 þjónustuþegar á Suðurnesjum þátt í könnuninni sem var framkvæmd með netkönnun og með úthringingum. Þátttakendur voru á aldrinum 18 til 75 ára og skiptust hlutfallslega jafnt eftir kynjum, aldri og búsetu. Ekki var marktækur munur á svörum þegar litið var til þeirra þátta.

Í niðurstöðum könnunarinnar kemur meðal annars fram að þátttakendur voru fyrst spurðir að ánægju með þjónustu HSS í heild. Þar var réttur helmingur sem var óánægður eða mjög óánægður með þjónustuna og meðaleinkunn var 2,57 af 5 mögulegum.

Eftir það var spurt um einstaka þjónustuþætti, sem fengu allir hærri meðaleinkunn meðal þátttakenda.

Læknavaktin síðdegis og um helgar var næstlægst með 2,86 í meðaleinkunn og almenn móttaka heilsugæslulækna á dagtíma kom þar á eftir með 3,19. Aðrar deildir og þjónustuþættir fengu betri útkomu. Ungabarnavernd skoraði hæst með 4,55 af 5 mögulegum og þar á eftir komu sykursýkismóttakan með 4,53, ljósmæðravaktin með 4,32 og hjúkrunarmóttaka með 4,30. 

Þjónustuþáttur Meðalskor
Ungbarnavernd 4,55
Sykursýkismóttaka 4,53
Ljósmæðravakt 4,32
Hjúkrunarmóttaka 4,30
Sérfræðilæknar 4,29
Rannsóknir 4,25
Heimahjúkrun 4,22
Röntgenmyndataka 3,94
Skólaheilsugæsla 3,90
Hjúkrunardeild í Víðihlíð 3,81
Dagdeild 3,74
Hvíld og endurhæfing 3,63
Sálfélagsleg þjónusta 3,62
Afgreiðslan í móttökunni 3,55
Sjúkradeild 3,42
Slysa- og bráðamóttaka 3,34
Afgreiðslan í aðalsíma HSS 3,22
Læknar á heilsugæslunni á dagtíma 3,19
Læknavaktin 2,86
Heildaránægja með HSS 2,57

Halldór Jónsson, forstjóri HSS, segir að þrátt fyrir að niðurstaðan sé vissulega ekki eins góð og æskilegt væri, sé þar fátt sem komi í raun á óvart. Þeir þjónustuþættir sem fá lægstu einkunn, eru einmitt þeir sem flestir nota, þ.e. læknavaktin, móttaka lækna á dagvinnutíma og slysa- og bráðamóttakan.

„Við höfum skynjað ákveðna óánægju með gang mála, en það helst í hendur að þar sem ekki tekst að uppfylla þörf íbúanna fyrir þjónustu verða til biðlistar og í sumum tilvikum of langir.“

Halldór segir að vandinn felist bæði í mannafla og aðstöðu, en misvel hefur gengið að manna stöður hjúkrunarfræðinga og lækna við stofnunina síðustu misseri auk þess sem húsnæði heilsugæslunnar uppfylli ekki kröfur. Fólksfjölgun hér á svæðinu hafi verið fordæmalaus og þrátt fyrir að viðbótarfjárveitingar hafi borist, hafi þær ekki reynst nægilegar.

Fólksfjölgun 2011-2019
Suðurnes 29%
Suðurland 15%
Höfuðborgarsvæði 13%
Vesturland 7%
Norðurland eystra 6%
Austurland 5%
Vestfirðir -1%
Norðurland vestra -2%

„Það má hins vegar ekki gleyma því að við komum í flestum tilvikum þokkalega vel út þegar spurt er um einstaka þjónustuþætti. Það sem vekur kannski helst athygli er að allir þjónustuþættir sem spurt er um, eru hærra metnir en ánægja með stofnunina í heild, sem segir okkur að við séum einnig að eiga við ákveðinn ímyndarvanda, en við honum verður líka að bregðast.“

Halldór segir að niðurstöður könnunarinnar muni verða nýttar til að bregðast við og bæta þjónustuna. Það verði meðal annars gert með því að meta ferla og framkvæmd þjónustunnar. Hér séu ýmis tækifæri þrátt fyrir erfiða stöðu.

„Við þurfum að styrkja og bæta aðstöðu okkar, bæði húsnæði, tæki og búnað og mannafla, þannig að það verði mögulegt að bjóða öllum íbúum svæðisins alla grunnheilbrigðisþjónustu á svæðinu á réttum tíma.“

„Það sem mér finnst hins vegar vera mikilvægast í þessum niðurstöðum er að þegar horft er til athugasemda frá þátttakendum í könnuninni, skín í gegn að viðhorf gagnvart starfsfólki HSS er almennt jákvætt. Okkar skjólstæðingar skynja að hér á HSS er gott starfsfólk sem gerir sitt besta, oft við krefjandi aðstæður. Á því byggjum við og vonumst til að gera enn betur.“

Um Heilbrigðisstofnun Suðurnesja:
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hefur um tæplega 65 ára skeið þjónað Suðurnesjum og nágrenni þar sem nú búa rúmlega 27.000 manns. Auk þess er Keflavíkurflugvöllur og Flugstöð Leifs Eiríkssonar innan þjónustusvæðis stofnunarinnar en þar höfðu hátt í tíu milljónir farþega viðkomu á síðasta ári.

Í könnuninni voru þátttakendur jafnframt spurðir hvort þeir hafi sótt heilbrigðisþjónustu annað en á HSS. Um fimmtungur svarenda sagðist nær eingöngu nýta sér heilbrigðisþjónustu annarsstaðar. Um helmingur þess hóps sagði að það væri vegna þess að þau töldu sig fá betri þjónustu annars staðar, en aðrir báru því meðal annars við að þjónusta sem þau leituðu sér væri ekki til staðar á HSS eða að það hentaði þeim einfaldlega betur að sækja þjónustu annað vegna atvinnu eða annarra þátta.