Inflúensa - Einkenni og ráðleggingar

mánudagur, 28. mars 2022
Inflúensa - Einkenni og ráðleggingar

Einkenni

Einkenni inflúensunnar koma oftast snögglega yfir fólk og algengustu einkennin eru:

 • Hiti 
 • Hósti 
 • Nefrennsli
 • Höfuðverkur og beinverkir (verkir í öllum líkamanum)
 • Hálsbólga og kvef eru sjaldgæfari einkenni í flensu en geta þó fylgt

Smitleiðir

Veiran berst milli manna með dropasmiti við hósta eða hnerra og/eða með snertismiti

Til að forðast smit er mikilvægt að:

 • Þvo hendurnar oft með vatni og sápu
 • Halda sig fjarri fólki sem er með inflúensu
 • Láta bólusetja sig árlega gegn inflúensu 

Hvað get ég gert?

 • Haltu þig heima og hvíldu þig.  Vertu heima þar til þú hefur verið einn sólarhring hitalaus og án hitalækkandi lyfja.
 • Drekktu vel af vatni.
 • Taktu hitalækkandi lyf sem þú færð í apóteki.
 • Þolinmæði, það tekur líkamann 1-2 vikur að jafna sig á inflúensu.

Hvenær skal leita aðstoðar?

 • Ef bati er hægur og einkenni langdregin. Einkenni inflúensu geta varað lengi og hiti er oft í marga daga. 
 • Þú finnur fyrir andþyngslum.
 • Þú hefur verk fyrir brjósti eða maga.
 • Þig svimar eða finnur fyrir sljóleika.
 • Þú kastar mikið upp

Ef barn fær inflúensu

Sömu ráð eiga við sjúkdóminn hjá barni,

 • Halda barninu heima þar til það hefur verið hitalaust í 1 til 2 sólarhringa án hitalækkandi lyfja og barninu líður vel.
 • Gefa hitalækkandi lyf eftir þörfum.
 • Gæta þess að gefa barninu vel að drekka. Börn geta þornað fljótt með háan hita.

Farðu með barnið strax á næstu bráðamóttöku ef:

 • Barnið fer að anda hratt eða á erfitt með öndun.
 • Barnið fer að blána.
 • Barnið er ekki að drekka nóg,  pissar lítið og þvag er mjög dökkt.
 • Barnið á erfitt með að vakna og/eða þú nærð litlu sambandi við það.
 • Barnið lagast af inflúensunni en slær síðan niður aftur og fær hita eða hósta.
 • Barnið fær hita og útbrot.

 

Ef ég er barnshafandi?

Ef þú ert barnshafandi skaltu alls ekki vera nálægt fólki sem er með inflúensu. Ef þú hefur áhyggjur skaltu hafa samband við ljósmóður eða heimilislækni. Ráðlagt er að þungaðar konur fái bóluefni.

Bóluefni

Áhættuhópar sem njóta forgangs við inflúensubólusetninu:

 • Allir einstaklingar 60 ára og eldri.
 • Öll börn og fullorðnir sem þjást af langvinnum hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdómum, sykursýki, illkynja sjúkdómum og öðrum ónæmisbælandi sjúkdómum.
 • Heilbrigðisstarfsmenn sem annast einstaklinga í áhættuhópum sem taldir eru upp hér að ofan.
 • Þungaðar konur.

Ofangreindir áhættuhópar eiga rétt á bóluefninu sér að kostnaðarlausu.

Bóluefni veitir ekki 100% vörn og getur fólk fengið einkenni inflúensu þrátt fyrir bólusetningu.