Heimsótti fæðingarstað sinn á HSS 60 árum síðar

föstudagur, 16. nóvember 2018
Mæðgurnar Anne Hemingway og Ellen Beam heimsóttu HSS 60 árum eftir að Anne fæddist þar.
Mæðgurnar Anne Hemingway og Ellen Beam heimsóttu HSS 60 árum eftir að Anne fæddist þar.

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja fékk sannarlega góða heimsókn í gær þegar bandarísku mæðgurnar Anne Hemingway og Ellen Beam litu stuttlega við.

Svo skemmtilega vill til að réttum 60 árum áður, hinn 15. nóvember árið 1958 lenti flugvél TWA með Ellen og Gordon, eiginmann hennar, innanborðs þar eð Ellen, sem var gengin átta mánuði með sitt fyrsta barn, hafði misst vatnið. Þau voru flutt í hendingskasti niður á Sjúkrahús Keflavíkur, eins og það hét þá, þar sem Anne kom í heiminn.

Eftir vikulanga sængurlegu hélt fjölskyldan aftur heim á leið vestur um haf, en nú eru þær komnar aftur á fornar slóðir, á sextugsafmæli Anne.

 
Ellen og Anne hittu meðal annara Jónínu Birgisdóttur, deildarstjóra Ljósmæðravaktar HSS. Hér eru þær saman í herberginu þar sem Anne fæddist, 60 árum áður.

Ellen, sem er nú 89 ára, mundi að sjálfsögðu vel eftir atburðum og þrátt fyrir að húsnæðið í gömlu byggingu HSS hafi breyst mikið í gegnum tíðina, rann hún á það herbergi sem hún lá á þessum tíma. Þar er nú röntgendeild HSS staðsett.

„Ég var á jarðhæð og horfði út um gluggann á börn að leik,“ sagði Ellen og hefur eflaust horft út að Barnaskólanum í Keflavík, sem nú er Myllubakkaskóli.

Saga hennar þennan dag var næstum reyfarakennd. Þau hjónin höfðu verið á ferðalagi um Evrópu og hún átti ekki von á sér fyr en mánuði seinna. Skömmu eftir að vélin fór í loftið frá París fór hins vegar allt að gerast. Hún tók sóttina en sökum slæms skyggnis gat vélin hvorki snúið við eða lent á Bretlandseyjum.

„Svo var eins og opnaðist niður í gegnum skýin fyrir ofan Keflavík,“ rifjaði Ellen upp, og flugvélinni var lent þar og stefnan tekin á sjúkrahúsið, sem hafði verið stofnað einungis fjórum árum áður. Á leiðinni niður eftir varð svo bíllinn sem þau voru í bensínlaus, en sem betur fer gerðist það nálægt bensínstöð þannig að þau voru fljót að dæla á og koma sér á spítalann.

„Það var eins og Guð hafi bara ætlað okkur að komast hingað og eignast barnið,“ sagði Ellen.

Þegar þangað var komið tóku tvær konur á móti Ellen, önnur þeirra var ljósmóðirin Ásta Hermannsdóttir.

„Mér leist nú ekki á að það væri enginn læknir þarna inni hjá okkur, en Gordon, maðurinn minn, samdi við lækninn um að þeir væru í dyragættinni þar sem ég sæi til þeirra. Svo voru þær alveg yndislegar og allt gekk svo vel,“ sagði Ellen sem eignaðist þarna hana Anne sína, sem var spræk og hraust þrátt fyrir að vera smávaxin, enda fæddist hún mánuði fyrir tímann eins og fyrr segir.

Ellen og Anne lágu inni í eina viku eftir fæðinguna, en eftir það hélt litla fjölskyldan heim. Ævintýrið þeirra hafði þó komist í fréttirnar bæði hér heima og vestanhafs.

Á meðan heimsókninni stóð í gær hittu þær mæðgur Halldór Jónsson forstjóra HSS og Jónína Birgisdóttir deildarstjóri ljósmæðravaktar fylgdi þeim um salarkynnin.

Sérstaklega þótti þeim þó ánægjulegt að hitta Sólveigu Þórðardóttur, sem starfaði hjá HSS um áratugaskeið, frá árinu 1956 allt fram til ársloka 2010.

 
 Mæðgurnar höfðu sérstaka ánægju af því að hitta Sólveigu Þórðardóttur, sem vann á Sjúkrahúsinu í Keflavík og HSS um áratugaskeið. Hún sagði mæðgunum frá starfseminni á sjúkrahúsinu um það leyti sem Anne fæddist þar.

Sólveig, sem var lengst af deildarstjóri fæðingadeildarinnar var sjálf ekki viðstödd fæðingu Anne, en gat meðal annars borið kennsl á starfsfólk sem var á ljósmyndum sem mæðgurnar höfðu með sér, og sagt frá starfseminni þessi fyrstu ár Sjúkrahússins.

Þegar Sólveig spurði Ellen um hvort henni hafi liðið illa eftir fæðinguna, verandi svo langt að heiman þar sem þau þekktu engan, þvertók Ellen fyrir það. Dvölin hafi verið yndisleg.

Hún hafi kynnst íslenskri konu sem átti barn sjúkrahúsinu á sama tíma. Sú átti amerískan mann ofan af herstöð, sem útvegaði Gordon svefnstað og Ellen fékk hjá þeim útvarp til að hlusta á tónlist og þess háttar.

Ellen og Anne voru sammála um að heimsóknin hafi haft mikil áhrif á þær og voru afar þakklátar fyrir móttökurnar sem þær fengu.

„Okkur fannst eins og við þyrftum að koma hingað,“ sagði Ellen. „Við eigum merkilega sögu sem okkur fannst við þurfa að segja.“

Starfsfólk HSS þakkaði þeim einnig fyrir yndislega heimsókn og bauð þær velkomnar aftur hvenær sem er.