Fjármálastjóri HSS

miðvikudagur, 24. apríl 2024
Fjármálastjóri HSS

Kjartan Kjartansson hefur verið ráðinn í starf framkvæmdastjóra fjármála á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

Kjartan er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði með áherslu á vörustjórnun og meistaragráðu í upplýsingastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík. Hann hefur yfirgripsmikla reynslu sem nýtist í starfi. Hann starfaði hjá Landspítala í tólf ár samtals við innkaup og rekstur á sviði heilbrigðis- og upplýsingatækni, stjórnun þjónustumiðstöðvar HUT, stjórnun birgðastöðvar og innkaupaþjónustu auk verkefnastýringar hjá innkaupadeild. Verkefni hans á Landspítala sneru m.a. að umsjón fjármála, áætlanagerðar, innkaupa og framkvæmd útboða ásamt greiningum, skýrslugerð og samningamálum. Hann starfaði í fjögur ár sem deildarstjóri hjá Upplýsingatækniþjónustu þjónustu- og nýsköpunarsviðs Reykjavíkurborgar. Bar hann þar ábyrgð á rekstri og fjármálum, áætlanagerð og innkaupum fyrir skrifstofuna. Auk þess tók hann þátt í verkefnum sem sneru að ferlagreiningu með það að markmiði að straumlínulaga ferla og hagræða í rekstri í tengslum við miðlæg innkaup.

Kjartan hefur starfað í sextán ár innan opinberrar stjórnsýslu og þar af í níu ár sem stjórnandi með mannaforráð. Hann hefur yfirgripsmikla reynslu af opinberum innkaupum, áætlanagerð, greiningum og miðlun fjárhagsupplýsinga. Hefur hann einnig haldgóða reynslu af fjárhagskerfi ríkisins.
Við bjóðum Kjartan velkomin til starfa.