Búið að bólusetja alla skjólstæðinga HSS sem þegið hafa boð

miðvikudagur, 16. júní 2021
Búið að bólusetja alla skjólstæðinga HSS sem þegið hafa boð
Við á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja náðum ánægjulegum áfanga í bólusetningum gegn Covid í dag. Nú ættu allir skjólstæðingar heilsugæslustöðva HSS, fæddir 2005 eða fyrr og þegið hafa boð um bólusetningu gegn Covid, að hafa fengið a.m.k. fyrri skammt af bóluefni.

Alls voru 1.500 bólusettir í dag og þar af um 500 sem fengu fyrri sprautu.

Þeir skjólstæðingar HSS sem vilja óska eftir að þiggja eldra boð geta sent upplýsingar um kennitölu og símanúmer á hss@hss.is  og fá þá boð þegar að þeim kemur.

Þá er einnig í boði að skrá sig á heilsugæslustöðvar HSS í gegnum Réttindagátt Sjúkratrygginga, eða með eyðublaði í móttöku HSS. Í framhaldinu má svo óska eftir boði, í tölvupósti á hss@hss.is  með upplýsingum um kennitölu og símanúmer.

Í næstu viku halda bólusetningar áfram á HSS og ætlum við að hafa opið hús í Janssen á fimmtudag kl. 13-14. Í boði eru 600 skammtar og verður tekið á móti fólki á meðan birgðir endast.
Hjúkrunarfræðingarnir Íris Dröfn og Sveinbjörg tóku við blómvendi sem framkvæmdastjórn HSS færði starfsfólki í tilefni af þessum tímamótum. Mynd/Víkurfréttir