Augnskimun með gervigreind hafin á HSS

þriðjudagur, 7. maí 2024
Augnskimun með gervigreind hafin á HSS

HSS leiðir byltingu í augnskimun með gervigreind. Augnskimun við augnsjúkdómum af völdum sykursýki er hafin á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, HSS, í samstarfi við RetinaRisk, sem er fyrirtæki í forystuhlutverki í notkun gervigreindar í heilbrigðisþjónustu. Þetta skref markar tímamót í heilbrigðisþjónustu á Íslandi, þar sem HSS tekur í notkun byltingarkennda tækni til að bæta heilbrigðisþjónustu við sína sjúklinga.

Augnskimun með gervigreind frá RetinaRisk mun gera stofnuninni kleift að greina sjónskerðandi augnbotnabreytingar af völdum sykursýki á gríðarlega skilvirkan hátt á stofnunni sjálfri og tilvísa aðeins þeim með staðfestan grun um kvilla til augnlæknis. Þetta minnkar kostnað gríðarlega fyrir sjúklingahópinn í heild sinni ásamt því að stórbæta aðgengi að skimun og til augnlækna fyrir þá sjúklinga sem þurfa á því að halda.

„Þetta er mjög skemmtilegt dæmi um að nota íslenska nýsköpun í heilbrigðisþjónustu. Ég er gríðarlega þakklátur fyrir forystumenn og kollega mína hérna í Reykjanesbæ að hafa þessa forystu um að taka þetta í notkun. Þetta snýst um það að koma í veg fyrir að sykursjúkt fólk missi sjónina og koma í veg fyrir sykursýkisblindu. Við gerum það með því að fylgjast með augunum í þeim sem hafa sykursýki og mynda augnbotnana með reglulegu bili. Þá eru þeir meðhöndlaðir sem á þurfa að halda. Við höfum þróað aðferð til að meta áhættu hvers og eins. Við metum einstaklingsbundna áhættu og mest út frá því hversu lengi fólk hefur haft sykursýki, hversu hár blóðsykurinn og blóðþrýstingurinn er og fleira í þeim dúr. Þannig getum við stýrt af meiri nákvæmni hversu oft fólk þarf að koma. Sumir eru í mikilli áhættu og þurfa eftirfylgni á þriggja eða sex mánaða fresti til að grípa inn í tímanlega. Aðrir eru í lítilli áhættu og kannski alveg nóg að þeir komi annað eða þriðja hvert ár. Þetta er mikil hagræðing fyrir einstaklingana sjálfa, sem þurfa þá ekki að mæta af óþörfu til læknis og sömuleiðis fyrir heilbrigðiskerfið. Fyrst og fremst er þetta markvissara. Við erum að beina heilbrigðisþjónustunni að þeim sem þurfa virkilega á henni að halda og hlífa hinum við óþarfa þjónustu,“ segir Einar Stefánsson, augnlæknir, hjá RetinaRisk.

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja rekur eina stærstu sykursýkismóttöku landsins með um 1.200 manns í eftirfylgni og hefur getið sér gott orð fyrir einstaklega vel skipulagða nálgun við það starf. Stofnunin þjónar breiðum notendahópi frá mörgum löndum og hefur þurft að nýskapa til að mæta vaxandi þörf sem hefur skilað sér í þeim gæðum sem einkennir starf móttökunnar. Aðgengi að augnskimun á einkareknum augnlæknastofum fer minnkandi samhliða mikilli fjölgun fólks með sykursýki og stöðnun í aukningu á fjölda augnlækna og kallar það á nýja nálgun sem gervigreindin er vel sett til að leysa.

„Við erum í okkar eftirliti með skjólstæðingum alltaf að fylgjast með tilkomu fylgikvilla. Gallinn hefur verið sá að þegar við þurfum að fylgjast með fylgikvillum í augnbotnum þá höfum við þurft að senda fólk annað, allt hitt erum við að skoða hjá okkur. Núna höfum við tækifæri til að skoða þetta þegar fólk kemur í eftirlit. Við gerum ráð fyrir því að þetta verði skilvirkara og það fái allir skoðun. Við erum frumkvöðlastofnun í þessum málum og þetta er spennandi verkefni,“ segir Hafdís Lilja Guðlaugsdóttir, teymisstjóri heilsueflandi móttöku á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

Með þessu nýja samstarfi stefna RetinaRisk og HSS að því að setja nýjan staðal í augnskimun og heilbrigðisþjónustu, sem mun gagnast sjúklingum um allt land.