Allir geta gefið líf – Lög um líffæragjafir breytast um áramót

mánudagur, 26. nóvember 2018
Allir geta gefið líf – Lög um líffæragjafir breytast um áramót

Tímamót verða á Íslandi um áramót þegar breytingar á lögum um líffæragjafir taka gildi. Með því verða einstaklingar sjálfkrafa gefendur líffæra.

Þeir sem vilja af einhverjum ástæðum ekki vera sjálfkrafa líffæragjafar eftir lagabreytinguna geta skráð afstöðu sína á vef landlæknis eða á „Mínum síðum“ á heilsuvera.is. Heilsugæslulæknar geta svo aðstoðað þá sem ekki nota tölvu eða stunda tölvusamskipti við að gera ráðstafanir í þessum efnum, að því er fram kemur í frétt á vef embættis landlæknis. Nánari upplýsingar má finna hér á vef Landlæknis.

Embættið hefur nú, í tilefni af breytingunum, hafið fundaröð um landið þar sem hitt er á starfsfólk í heilbrigðisþjónustu.

Árlega þurfa 25-30 Íslendingar líffæraígræðslu

Árlega þarfnast 25-30 sjúklingar líffæraígræðslu á Íslandi og þeim fer fjölgandi að því er segir í fyrrnefndri grein. þegar eru fjarlægð úr látnu fólki og grædd í sjúklinga sem búa við að líffæri þeirra séu alvarlega biluð og starfi takmarkað eða alls ekki.  

Líffærin sem fjarlægð eru úr látnu fólki, t.a.m. hjörtu, lungu, lifur, nýru, bris eða þarmar eru flutt frá Íslandi til Svíþjóðar og grædd í sjúklinga á Sahlgrenska háskólasjúkrahúsinu í Gautaborg. Algengt er að ígrædd nýru komi frá lifandi gjöfum, oftast nánum ættingjum sjúklinga. Nýrnaaðgerðir eiga sér líka stað á Landspítala.

Einn getur gefið sex manns líf

Spánverjar eru allra þjóða duglegastir að gefa líffæri, en Íslendingar standa sig líka vel að þessu leyti og fóru meira að segja upp fyrir Spánverja á heimslista líffæragjafa árið 2015.

Alls hafa um hundrað manns á Íslandi gefið líffæri frá því að líffæragjafir hófust árið 1993 og því hafa vel yfir 350 manns notið góðs af líffæragjöf, því líffæri eins gjafa geta komið allt að sex manns til góða.

Alþjóðlegt samstarf er um líffæragjafir og líffæramiðlun. Líffæri Íslendinga bjarga mannslífum annarra Íslendinga en þau geta líka bjargað lífi þurfandi fólks annars staðar á Norðurlöndum og dæmi eru um að íslensk líffæri hafi verið grædd í fólk í Þýskalandi og Bretlandi. Á sama hátt bjarga líffæri útlendinga lífum Íslendinga.

Yngsti gjafinn nokkurra mánaða, sá elsti 85 ára

Í greininni á vef Landæknisembættisins kemur fram að á nýafstöðnum kynningarfundum Bæði á Sauðárkróki og Akureyri var spurt um hvort aldur líffæragjafa skipti ekki máli. Svarið er að svo er bara alls ekki.

Yngsti líffæragjafinn á Íslandi var nokkurra mánaða gamalt barn en sá elsti 85 ára. Raunar kom fram á fundunum að nýru og lungu úr börnum séu grædd í fullorðið fólk með ágætum árangri.

Allir geta þannig gefið líf.