Ábendingar umboðsmanns barna vegna sýnatöku hjá börnum á HSS

föstudagur, 14. janúar 2022
Ábendingar umboðsmanns barna vegna sýnatöku hjá börnum á HSS

Vegna ábendingar umboðsmanns barna sem beint var til HSS þann 11. janúar, varðandi sýnatöku barna, viljum við á HSS koma því á framfæri að um mikilvægt verkefni er að ræða við óvenjulegar aðstæður vegna heimsfaraldurs COVID-19. Sú ákvörðun var tekin af framkvæmdastjórn HSS að útvista sýnatökunni til að lágmarka þann fjölda heilbrigðisstarfsfólks sem annars hefði þurft að taka úr annarri mikilvægri þjónustu við skjólstæðinga stofnunarinnar. Það er mat framkvæmdastjórnar að ríkari hagsmunir séu af því að halda daglegri starfsemi stofnunarinnar sem mest óraskaðri.

 

HSS tekur undir að mikilvægt er að börn upplifi sig örugg og að aðstæður séu eins barnvænar og kostur er. Starfsfólkið sem nú sinnir sýnatöku er þaulvant og nýtur leiðsagnar heilbrigðisstarfsfólks í sínum verkum. Reynt verður að koma til móts við ábendingar umboðsmanns barna eins og kostur er til að gera sýnatökuna eins auðvelda og núverandi bjargir leyfa en miklar endurbætur standa yfir á annars þröngum húsakosti HSS. Það er einlægur vilji starfsfólks að óskemmtileg sýnataka verði börnunum ekki erfið reynsla.