Heimahjúkrun

Um þjónustu heimahjúkrunar gilda lög um heilbrigðisþjónustu nr.40/2007 og reglugerð um heilsugæslustöðvar nr.787/2007. Heimahjúkrun er heilbrigðisþjónusta sem er veitt í heimahúsum og er fyrir alla aldurshópa. Verkefni heimahjúkrunar byggjast á þörf einstaklinga fyrir heilbrigðisþjónustu og flokkast að undangengnu mati í:

  • Stuðning, lyfjaeftirlit og / eða böðun:
    Einstaklingar sem þurfa stuðning, eru t.d. óöruggir og / eða kvíðnir, en eru að mestu sjálfbjarga.
  • Sérhæfða hjúkrun:
    Einstaklingur sem þarfnast sérhæfðrar hjúkrunar, s.s. sárameðferð, sýklalyfjagjöf og hjartabilunareftirlit.
  • Víðtæka hjúkrun og / eða líknandi meðferð vegna langvinns sjúkdóms:
    Einstaklingur sem þarfnast víðtækrar hjúkrunar daglega eða oft á dag vegna langvinnra sjúkdóma s.s. heilabilunar, geðfötlunar og líkamlegrar skerðingar.

Heimahjúkrun veitir ekki fasta viðveru eða yfirsetu á heimilum einstaklinga.

Markmið

Markmið heimahjúkrunar er að styðja einstaklinga að ná líkamlegri og andlegri færni og gera þeim þannig kleift að búa heima við sem eðlilegastar aðstæður þrátt fyrir veikindi og/eða skerta færni.

Þjónustutími 

Heimahjúkrun alla daga vikunnar kl. 08:00 – 23:30

Miðað er við að hefja þjónustu sem fyrst og ekki seinna en innan tveggja sólarhringa frá því að beiðni/umsókn liggur fyrir. Hjúkrunarfræðingar eru á bakvakt á nóttunni eftir þörfum ef um líknandi þjónustu er að ræða í heimahúsi.

Umsóknir og mat á þjónustuþörf

Beiðni/umsókn um heimahjúkrun þarf að berast skriflega frá starfsfólki í heilbrigðis- eða félagsþjónustu. Landspítali og aðrar heilbrigðisstofnanir nota beiðni/umsókn um heimahjúkrun í sögu og senda rafrænt. Mikilvægt er að tilgreina tilefni umsóknarinnar, sjúkdómsgreiningar og heilsufarsvanda umsækjanda. Óskað er eftir að hjúkrunar- og/eða læknabréf fylgi umsókn. Ef unnt er að verða við beiðninni kemur hjúkrunarfræðingur í vitjun, metur hjúkrunarþörf og skipuleggur þjónustuna í samvinnu við einstaklinginn, fjölskyldu hans og aðrar heilbrigðisstéttir.

Útskrift

Heimahjúkrun er veitt meðan þörf er á þjónustu. Þegar viðkomandi hefur náð líkamlegri og andlegri hæfni til að bjarga sér sjálfur, hefst undirbúningur fyrir útskrift. Útskriftin er í samráði við skjólstæðing, aðstandendur, heimilislækni og stuðningsaðila.

Þó einstaklingur sé útskrifaður, getur hann eða aðstandendur hans alltaf haft samband við heimahjúkrun ef þörf krefur.

Vinnuaðstæður

Starfsemi heimahjúkrunar sem fram fer á einkaheimilum fellur undir lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum (2. gr. laga nr. 46/1980).

Stundum þarf að gera ráðstafanir á heimilum áður en heimahjúkrun hefst, til þess að bæta aðgengi og öryggi skjólstæðingsins og/eða starfsmanna heimahjúkrunar. Matsblað frá vinnueftirliti ríkisins er notað við mat á heimilisaðstæðum. Úrvinnsla þess er unnin í samráði við þjónustuþega og aðstandendur.

Starfsmenn hafa undirritað þagnareið og helst þagnarskyldan þótt starfsmaður láti af störfum.

Reyklaust umhverfi

Starfsfólk heimahjúkrunar á fullan rétt á því að vinna í reyklausu umhverfi og er fólk beðið að virða það.

Að hafa samband

Hægt er að panta símtal, eða koma skilaboðum til starfsmanna á virkum dögum á milli kl. 8:00 og 16:00 í síma 422-0500.

Utan dagvinnutíma, frá kl. 16:00 til 23:30 og um helgar er svarað í vaktsíma heimahjúkrunar 860-0140.

Aðalnúmer

422-0500

Grindavík

422-0750

Vaktsími eftir lokun

1700

Neyðarnúmer

112