Staðfestu samstarf heimahjúkrunar HSS og stuðningsþjónustu Reykjanesbæjar

fimmtudagur, 11. júní 2020
Staðfestu samstarf heimahjúkrunar HSS og stuðningsþjónustu Reykjanesbæjar

HSS og Reykjanesbær undirrituðu í gær samning um samvinnu heimahjúkrunar HSS og stuðningsþjónustu Reykjanesbæjar.

Samstarfið hófst formlega 1.október 2019 og er það byggt á vinnu tveggja starfshópa sem hafa verið að störfum síðan síðla árs 2017. Fyrri starfshópur komst að þeirri niðurstöðu að hægt væri að efla og samhæfa þjónustu beggja aðila betur, samhliða tilfærslum verkefna frá heimahjúkrun til félagslegrar heimaþjónustu. Seinni starfshópnum var falið að útfæra samstarfið.

Með samstarfinu er verið að byggja brú á milli heilbrigðisþjónustu og stuðningsþjónustu Reykjanesbæjar. Markmiðið er að veita örugga, rétt tímasetta og skilvirka, notendamiðaða og árangursríka þjónustu sem er bæði samfelld og samhæfð. Áhersla verður lögð á að þjónustan auki líkur á bættri heilsu og auknum lífsgæðum þjónustuþega.

„Við erum öll í sama liðinu og vinnum að sama markmiðinu sem er að koma til móts við skjólstæðinga okkar á þeirra forsendum,“ segir Margrét Blöndal, deildarstjóri heimahjúkrunar á HSS.

„Á milli okkar ríkir jákvætt andrúmsloft og allir hjálpast að við að finna lausnir með því að vinna saman. Það er mikill breytileiki í þjónustunni og við eigum mjög auðvelt með að biðja félagsþjónustu um að taka að sér verkefni frá okkur og öfugt. Það sem við sjáum er að ákveðin verkefni hafa færst frá heimahjúkrun yfir til stuðningsþjónustu en einnig hefur þjónustan aukist. Það var komin mikil þörf á þetta samstarf en með því viljum við gera þjónustuna skilvirkari ásamt því að eyða svokölluðum „gráum svæðum“. Vinnan okkar síðustu mánuði hefur gengið vel og okkar skjólstæðingar eru mjög ánægðir með þetta nýja fyrirkomulag og við munum halda áfram að bæta þjónustuna á næstu misserum.“

Myndir: Markús Ingólfur Eiríksson forstjóri HSS og Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri undirrituðu samninginn í blíðunni í skrúðgarðinum miðja vegu milli ráðhússins og HSS, að viðstöddum fulltrúum frá heimahjúkrun og félagsþjónustunni.

Aðalnúmer

422-0500

Grindavík

422-0750

Vaktsími eftir lokun

1700

Neyðarnúmer

112