JANUS og HSS í samstarf

miðvikudagur, 10. mars 2021
Mynd/Víkurfréttir: Andrea Klara Hauksdóttir, deildarstjóri hjúkrunar á heilsugæslu HSS í Reykjanesbæ, og Janus Guðlaugsson „handsala“ samstarfssamning HSS og JANUSar.
Mynd/Víkurfréttir: Andrea Klara Hauksdóttir, deildarstjóri hjúkrunar á heilsugæslu HSS í Reykjanesbæ, og Janus Guðlaugsson „handsala“ samstarfssamning HSS og JANUSar.

HSS og JANUS Heilsuefling undirrituðu á dögunum samstarfssamning um heilsueflingu og heilsuvernd 65 ára og eldri í Reykjanesbæ og Grindavík.

Í samningnum er unnið út frá þremur þáttum. Samstarfi um heilsuvernd aldraðra 65 ára og eldri, áframhaldandi samvinnu á sviði blóðmælinga og greiningu á efnaskiptavillu, og loks er um að ræða samstarf um innleiðingu á heilstæðri þjónustu fyrir einstaklinga sem lifa með offitu, en það verkefni snýr að öllum aldursþáttum, ekki bara fyrir eldri borgara.

Í viðtali við Víkurfréttir segir Hafdís Guðlaugsdóttir, hjúkrunarfræðingur á HSS, frá nýju verkefni sem er að hefjast á HSS, en þar er um að ræða heilsueflandi móttökur annars vegar fyrir aldraða og hins vegar fyrir einstaklinga sem lifa við offitu.

„Við höfum verið með sykursýkisþjónustu síðan 2001 en þetta er nýtt í boði hjá HSS og við erum spennt fyrir þessari nýjung, bæði í aukinni þjónustu við aldraða og síðan við þá sem glíma við offitu,“ segir Hafdís.

„Móttaka fyrir aldraða er opin á þriðjudögum og fimmtudögum þar sem hjúkrunarfræðingur tekur á móti aðstandendum og fólki 75 ára og eldri og leiðbeinir því með heilsufarslega úrlausnir, líkamlegar og andlegar og þau úrræði sem eru í boði.“

„Í þjónustu við einstaklinga sem glíma við offitu er í móttöku teymi skipað tveimur hjúkrunarfræðingum, næringarfræðingi og lækni. Okkur vantaði úrræði í hreyfingu og vorum svo lánsöm að hitta á Janus og hans fólk og saman munum við nú bjóða einstaklingum sem lifa við offitu þessa þjónustu.“

„Hún snýst að miklu leyti um að styrkja fólk til að gera breytingar á sínum lífsstíl. Það er mjög einstaklingsbundið hvenær fólk kemst í þessa stöðu. Margir eru búnir að reyna margt. Þetta er ekki megrunaraðferð heldur lífsstílsbreytingar sem við, með Janusi og hans fólki, hjálpum einstaklingum sem glíma við þennan sjúkdóm að vinna með. Við erum líka með sálfræðing sem aðstoðar okkur í þessu verkefni. Verkefnið gengur út á það að aðstoða fólk við að hætta að þyngjast, að léttast um 5–10% er mikill ávinningur því fylgifiskar offitu eru m.a. hjarta- og æðasjúkdómar og mjög alvarlegar truflanir á lungnastarfsemi og stoðkerfi, kæfi-svefn og ýmislegt fleira. Markmiðið er að bæta líðan einstaklinganna og að fólk nái ákveðinni staðfestu til að lifa góðu lífi.“

Sjá nánari umfjöllun á vef Víkurfrétta.

Aðalnúmer

422-0500

Grindavík

422-0750

Vaktsími eftir lokun

1700

Neyðarnúmer

112