HSS léttir undir með Landspítala

föstudagur, 20. ágúst 2021
HSS léttir undir með Landspítala

Sjúkradeild HSS hefur nú tekið á móti níu sjúklingum frá Landspítalanum í þau tíu rými sem HSS opnaði á mánudaginn í síðustu viku. Stjórnendur HSS binda vonir við að ná að manna stöður á deildinni svo unnt verði að hafa rýmin opin í um fjórar vikur, en telja um leið að full þörf sé á að hafa rýmin opin lengur en það. Því er nú unnið að því að fjölga starfsfólki.

Aðstaða hefur verið sett upp til bráðabirgða á annarri hæð í svokallaðri B-álmu, við hlið ljósmæðravaktarinnar.

Þórunn Benediktsdóttir hjúkrunarfræðingur, sem starfaði um áratugaskeið á HSS, er ein þeirra sem bauð fram krafta sína svo hægt yrði að opna þessi rými. Að sögn Þórunnar láta sjúklingar vel af dvölinni sem af er.

Markús Ingólfur Eiríksson, forstjóri HSS, segir að opnun rýmanna á HSS skipti sköpum í því ástandi sem nú ríkir.

„Aðdáunarvert var að sjá hversu hratt starfsfólkið okkar brást við því ákalli að bjóða fram krafta sína til að gera HSS kleift að létta undir með Landspítala. Mér er mikill heiður að starfa með svona framúrskarandi fólki sem á mikið hrós skilið.

Þetta sýnir einnig hversu mikilvægur hlekkur HSS er í heilbrigðisþjónustu landsins. Uppbygging á okkar starfsemi mun því gagnast fleirum en einungis íbúum Suðurnesja.“

Mynd/Starfsfólkið á deildinni segir sjúklingana láta vel af dvölinni á HSS