Forstjóri HSS: Aðgerða er þörf í húsnæðismálum

mánudagur, 26. ágúst 2019
Forstjóri HSS: Aðgerða er þörf í húsnæðismálum
Svandís Svavardóttir heilbrigðisráðherra kynnti nýsamþykkta heilbrigðisstefnu fyrir Ísland á opnum fundi á HSS í vikunni. Á fundinum sagði Markús Ingólfur Eiríksson, forstjóri HSS, að stefnan markaði tímamót í heilbrigðismálum hér á landi, en ýmislegt væri enn ógert til að svara kröfum almennings um heilbrigðisþjónustu.
 
„Eitt lykilatriði í að vinna eftir heilbrigðisstefnunni er að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað sjúklinga í heilbrigðiskerfinu.“
 
Markús sagði lýðheilsuvísa sýna glöggt að hvergi sé eins mikil þörf fyrir öfluga heilsugæsluþjónustu og einmitt hér á Suðurnesjum. Þá skjóti skökku við að ekki hafi verið tekið tillit til mikillar íbúafjölgunar á svæðinu, sem hafi aukið álag á stofnunina, bæði hvað varðar húsnæði og mönnun. Hvað varðar það síðarnefnda skiptir miklu að geta boðið upp á gott og aðlaðandi starfsumhverfi til að laða að fólk, en staðreyndin sé að HSS er í mikilli samkeppni við aðrar stofnanir í þeim efnum.
 
Starfsfólkið, sem sé sannarlega fáliðað og undir miklu álagi, hafi þó gert sitt besta í erfiðum aðstæðum, en eftir standi að íbúar í samfélaginu séu ekki ánægðir með þjónustuna og eitt af helstu vandamálunum sé ímyndarvandi. Nú sé þó verið að vinna í því að bæta bæði þjónustu og ímynd HSS.
 
„Við ætlum okkur að gera betur og við sjáum nú þegar mörg jákvæð teikn á lofti. Við erum með ungt, kraftmikið og vel menntað starfsfólk og erum að þróa breytt verklag á heilsugæslunni, meðal annars með bættum rafrænum lausnum, aukinni teymisvinnu og samskiptum við félagsþjónustu sveitarfélaganna á svæðinu.“
 
Húsnæðisumbætur á HSS eru að sögn Markúsar algjört lykilatriði þegar horft er fram á veginn.
 
„Við þurfum að fara út í endurbætur og þar er auðvitað nauðsynlegt að hafa skýra langtímahugsun í þeim efnum, en það er engin spurning að aðgerða er þörf strax.“ 
 
Myndir/Heilbrigðisráðuneytið