Flensubólusetning hafin á HSS

föstudagur, 21. september 2018
Flensubólusetning hafin á HSS

Bólusetningar gegn inflúensu á HSS hófust, föstudaginn 21. september. Tímabókanir eru í síma 422-0500, virka daga milli kl. 9 og 16.

Sóttvarnalæknir mælist til að eftirtaldir áhættuhópar njóti forgangs við inflúensubólusetningar:
• Allir einstaklingar 60 ára og eldri.
• Öll börn og fullorðnir sem þjást af langvinnum hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdómum, sykursýki, illkynja sjúkdómum og öðrum ónæmisbælandi sjúkdómum.
• Heilbrigðisstarfsmenn sem annast einstaklinga í áhættuhópum sem taldir eru upp hér að ofan.
• Þungaðar konur.

Ofangreindir hópar fá bólusetningu sér að kostnaðarlausu, borga aðeins komugjald.

Inflúensa getur verið skæður sjúkdómur, einkum hjá fólki með undirliggjandi sjúkdóma og hefur sóttvarnalæknir áður hvatt þá sem eru í þeim áhættuhópi til að láta bólusetja sig.

Læknar HSS hafa tekið saman þessar ábendingar:
Inflúensa lýsir sér oftast með háum hita og beinverkjum, oft með höfuðverk og þurrum hósta. Sumir fá einnig sára hálsbólgu og stundum eru til staðar einkenni frá meltingarfærum. Verstu einkennin ganga yfir á 2 til 3 sólarhringum og undantekningalítið jafnar fólk sig án nokkurra vandkvæða. Ekki er til lækning við inflúensu en almenn verkjalyf svo sem parasetamól og bólgueyðandi lyf svo sem íbúfen geta mildað einkenni mikið.

Til eru veirulyf sem draga úr einkennum svo sem tamiflu og relenza, sérstaklega ef þau eru gefin strax en flestir jafna sig fljótt og vel án nokkurra inngripa og eru að fullu frískir á ca. viku.

Inflúensa er gríðarlega smitandi og því er áríðandi að fólk takmarki eins og unnt er samskipti við annað fólk meðan á veikindum stendur og gæti sérstaklega að handþvotti og öðru hreinlæti. Almennt er ráðlegt að halda sig heima við í að minnsta kosti viku í kringum einkenni, bæði til að ná að jafna sig og til að draga úr útbreiðslu flensunnar.

Aldrei er of seint fyrir fríska einstaklinga að bólusetja sig við inflúensu, bólusetningin minnkar líkur á smiti um ca. 60% og þeir sem eru bólusettir en veikjast fá yfirleitt mun vægari einkenni. Ekki er hægt að fá flensu gegnum bólusetningu.

Til að draga úr álagi á vaktþjónustu HSS og draga úr útbreiðslu smits biðjum við fólk að íhuga fyrrgreind atriði áður en leitað er til heilsugæslunnar. Símaþjónusta HSS (422-0500) er ávallt boðin og búin að veita ráðleggingar og aðstoða fólk án þess að það komi á staðinn.