Covid-19 og inflúensan

þriðjudagur, 3. mars 2020
Covid-19 og inflúensan

Nú er tími inflúensu genginn í garð. Inflúensa smitast greiðlega á milli manna með úða og snertismiti. Einkenni inflúensunnar koma oftast snögglega með háum hita, skjálfta, höfuðverk, beinverkjum, þurrhósta og hálssærindum. Aðrar umgangspestir eru líka að ganga eins og allan ársins hring sem lýsa sér oft í kvefi og vægari einkennum.

Líkurnar á að einkennin séu af völdum Covid-19 eru afar litlar nema þú hafir verið á skilgreindu áhættusvæði  eða umgengist einstakling sem greindur hefur verið með Covid-19 veiruna.

Til að draga úr smithættu er fólki sem hefur ástæðu til að ætla að það hafi sýkst af kórónaveirunni, bent á að hringja á heilsugæsluna á opnunartíma eða í vaktsímann 1700, sem er opinn allan sólarhringinn, og fá leiðbeiningar.

Fólk sem telur sig hafa einkenni sjúkdómsins á ekki að koma á heilsugæsluna eða bráðamóttöku beint heldur hringja og fá ráðleggingar. Helstu einkenni eru hiti, hósti, beinverkir og öndunarerfiðleikar.

Ekki koma beint á heilsugæslustöð - hringdu fyrst

Góð handhreinsun er mikilvægasta ráðið fyrir heilbrigða til að forðast smit.

Handþvottur með vatni og sápu er æskilegastur ef hendur eru óhreinar, en hendur sem virðast hreinar en hafa komið við sameiginlega snertifleti s.s. hurðarhúna, eða tekið við hlutum úr annarra höndum s.s. peningum eða greiðslukortum má hreinsa með handspritti.

Gagnlegir tenglar:

Fræðsla um mikilvægi handþvottar

Upplýsingar um Covid 19 á vef Landlæknis