Geðheilbrigði

Á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja eru starfrækt þrjú teymi sem sinna sálfélagslegri þjónustu: Geðheilsuteymi, geðteymi og forvarnar- og meðferðarteymi barna, sem starfa eftir stefnu og aðgerðaáætlun stjórnvalda í geðheilbrigðismálum. Þjónusta geðteymanna fer fram frá 8:00-16:00. Geðteymin þjónusta skjólstæðinga HSS og nær þjónustan til allra sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Einstaklingur telst vera með geðröskun ef hann býr við andlega líðan eða ástand sem skerðir möguleika hans til lífsgæða, tilfinningalegra og/eða félagslegra samskipta, þátttöku í námi eða starfi eða virkni í samfélaginu að öðru leyti. 

Sé þörf á bráðaþjónustu er bent á bráðamóttöku geðsviðs LSH. Bráðaþjónusta göngudeild geðdeilda: sími 543-4050, opið virka daga 12-19 og helgar og hátíðir 13-17.
Vakthafandi læknir á geðdeild Landspítala: sími 543-1000

 

Forvarnar- og meðferðarteymi barna, FMTB.
Í teyminu  eru starfandi 3 sálfræðingar.


Markhópar:
Börn og unglingar að 18 ára aldri sem falla fyrir utan ramma þeirrar þjónustu sem skólasálfræðingar veita á Suðurnesjum. Unnið er með vægan til miðlungs alvarlegan tilfinningavanda. Dæmi um viðfangsefni teymisins er þunglyndi og kvíði og afleiðingar áfalla. Eins er boðið upp á 1-3 ráðgefandi viðtöl við foreldra barna með hegðunarvanda. Tilgangur þeirra viðtala er fyrst og fremst að kortleggja vandann, veita almenna ráðgjöf og ef þörf er á vísa í viðeigandi úrræði ef vandi barns er talin fjölþættur eða langvarandi.

Í vinnu með börnum og unglingum er unnið eftir þörfum með foreldrum þeirra, fjölskyldu og öðrum fagaðilum. Almennt er miðað við 4-12 viðtöl ef um vægan til miðlungs tilfinningavanda er að ræða eða eftir mati sálfræðings

Haustið 2022 er boðið upp á hópmeðferð fyrir foreldra 8-12 ára barna með kvíðavanda.

Tilvísunarferli: 
Foreldrar og börn geta fengið þjónustu að undangengnu tilvísanaferli. Beiðnir um sálfræðiþjónustu berast frá læknum eða öðrum fagaðilum á HSS, sálfræðingum fræðsluskrifstofu og starfsfólki félagsþjónustu auk annarra fagaðila. Teymið fer yfir þær beiðnir sem berast og ef vandi barns er talinn heyra undir sálfræðiþjónustu, er foreldrum bent inn á vefslóð þar sem fylla þarf út upplýsingablað, og svara skimunarlista fyrir depurð og kvíða. Best er ef við getum sent fólki vefslóðina í bréfi inn á heilsuveru, en annars í tölvupósti.  Þegar FMTB hefur móttekið upplýsingar og metið þær, fá tilvísandi og foreldri upplýsingar um ákvörðun teymisins. Gögnum sem er aflað við mat á tilvísunum er eytt þegar barn hefur lokið hér meðferð.

Vinsamlegast athugið að barnið er ekki komið á biðlista fyrr en við höfum fengið viðbótarupplýsingar frá foreldrum.

Hægt er að nálgast umsóknareyðublað hér

 

Geðteymi

Geðteymið er fyrir einstaklinga 18 ára og eldri þar sem áhersla er lögð á sálfræðimeðferð við þunglyndi, kvíða og áföllum þar sem vandinn er vægur-miðlungs alvarlegur. Í Geðteyminu er bæði veitt einstaklingsmeðferðir og hópmeðferðir. Geðteymið þjónustar einnig mæður barna frá 0-1 árs sem kljást við tilfinningalegan vanda. Áhersla er lögð á að efla tengslamyndun milli barns og foreldris. Í Geðteyminu eru starfandi fimm sálfræðingar og unnið er eftir gagnreyndum meðferðum.  

Sálfræðiþjónusta geðteymis er ekki langtíma úrræði fyrir alvarlegan geðrænan vanda. Ef vandi reynist alvarlegur eða fjölþættur í matsviðtali er beiðni send til Geðheilsuteymis eða vísað áfram í viðeigandi úrræði.

Ekki er unnið með félagslegan vanda, áfengisvanda, þroskaskerðingu og annan vanda sem krefst sérhæfðari þjónustu. Teymið sinnir ekki greiningum á ADHD, einhverfu, greindarprófunum eða þroskamötum.

Tilvísunarferli:

Tilvísun þarf að berast frá fagfólki í heilbrigðis- eða velferðarþjónustu með lýsingu á vanda og grun um geðgreiningu. Tilvísanir frá heilbrigðisstarfsfólki skulu berast í gegnum sögukerfið. Mikilvægt er að tilvísun sé vel útfyllt svo hægt sé að taka afstöðu til hennar. Ófullnægjandi tilvísunum er vísað frá.

Hér má nálgast tilvísun í teymið fyrir starfsmenn heilbrigðis-og velferðarþjónustu utan stofnunar HSS.

Fyllið umsóknareyðublað út rafrænt og prentið út til að notandi geti skrifað undir.

Umsókn í geðteymi HSS
Umsóknin sendist í ábyrgðarpósti til:

Geðteymi HSS
Skólavegi 6, 230 Reykjanesbæ

Eða í gegnum signet transfer

 

Geðheilsuteymi

Geðheilsuteymið er fyrir einstaklinga 18 ára og eldri sem eru greindir með geðsjúkdóma og þurfa á þverfaglegri aðstoð og eftirfylgni að halda. Þjónustan er veitt bæði á stofnuninni og í heimahúsi. Þjónusta Geðheilsuteymisins er fyrir skjólstæðinga HSS og er gjaldfrjáls. 

Í teyminu starfa sálfræðingar, geðhjúkrunarfræðingur, félagsráðgjafar, geðlæknir, íþróttafræðingur og iðjuþjálfi. 

Geðheilsuteymið starfar eftir batahugmyndafræðinni en lagt er áherslu á að viðhalda von og skapa betra líf með því að byggja á styrkleikum einstaklingsins. Batahugmyndafræðin byggir á samvinnu við einstaklinginn, þar sem markmið eru sett í sameiningu sem stuðla að sjálfsábyrgð og valdeflingu. 

Þjónusta geðheilsuteymis er ekki langtíma úrræði fyrir alvarlegan geðrænan vanda. Teyminu er ekki ætlað að sinna bráðatilfellum en leitast verður við að mæta þörfum nýrra skjólstæðinga eins fljótt og auðið er. 

Hlutverk Geðheilsuteymisins er meðal annars:

  • Að stuðla að og viðhalda bata.
  • Að tryggja einstaklingsmiðaða þjónustu. 
  • Að tryggja samfellu og samþættingu í meðferð.
  • Að efla sálrænt og félagslegt heilbrigði einstaklingsins og fjölskyldu hans.
  • Að hvetja til sjálfshjálpar og sjálfsvirðingar.
  • Að styðja einstaklinginn í að lifa innihaldsríku lífi.
  • Að fækka endurinnlögnum og styrkja aðlögunarhæfni eftir útskrift af sjúkrahúsum.
     

Teymið sinnir ekki greiningum á ADHD, einhverfu, greindarprófunum eða þroskamötum.

Tilvísunarferli:

Tilvísun þarf að berast frá fagfólki í heilbrigðis- eða velferðarþjónustu. Tilvísanir frá heilbrigðisstarfsfólki skulu berast í gegnum sögukerfið. Mikilvægt er að tilvísun sé vel útfyllt svo hægt sé að taka afstöðu til hennar. Ófullnægjandi tilvísunum er vísað frá. Eyðublaðið er fyllt út rafrænt, prentað út og sent í ábyrgðarpóst til Geðheilsuteymis Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. 

Hér má nálgast tilvísun í teymið fyrir starfsmenn heilbrigðis-og velferðarþjónustu utan stofnunar HSS.

Fyllið umsóknareyðublað út rafrænt og prentið út til að notandi geti skrifað undir.

Umsókn í geðheilsuteymi HSS

Umsóknin sendist í ábyrgðarpósti til:

Geðheilsuteymi HSS
Skólavegi 6, 230 Reykjanesbæ

Eða í gegnum signet transfer

 

Fyrir frekari upplýsingar varðandi teymin má senda fyrirspurn á gedheilsuteymi@hss.is

Aðalnúmer

422-0500

Grindavík

422-0750

Vaktsími eftir lokun

1700

Neyðarnúmer

112