Um nýtt greiðsluþátttökukerfi fyrir heilbrigðisþjónustu

  • Published in Fréttir

MinnismerkiHinn 1. maí síðastliðinn tók gildi nýtt greiðsluþátttökukerfi. Í stað þess að miða við almanaksár og reikna afslátt eftir ákveðna uppsafnaða upphæð frá áramótum er nú stuðst við hámarksupphæð sem hver skjólstæðingur heilbrigðiskerfisins gæti þurft að borga.

Hvers konar þjónusta fellur undir nýja kerfið?

Undir nýja kerfið falla greiðslur vegna þjónustu sem veitt er á sjúkrahúsum, heilsugæslustöðvum og hjá sjálfstætt starfandi heimilislæknum. Einnig greiðslur vegna þjónustu hjá sjálfstætt starfandi sérgreinalæknum, sjúkraþjálfum, iðjuþjálfum, talmeinafræðingum og sálfræðingum sem starfa samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands, ásamt rannsóknum, geisla- og myndgreiningum.

Samanlagður kostnaður einstaklinga vegna ofangreindrar þjónustu verður aldrei hærri en nemur tilteknu hámarki á mánuði og aldrei hærri en nemur tilteknu hámarki á hverju 12 mánaða tímabili.

Almennir notendur

Greiðslur almenns notanda í nýju kerfi geta á 12 mánaða tímabili numið að hámarki 69.700 kr. en verða þó aldrei hærri en 24.600 kr. á mánuði. Ef mánaðarhámarki er náð mun einstaklingur ekki þurfa að greiða meira fyrir þjónustu það sem eftir lifir mánaðar. Í upphafi næsta mánaðar, og svo í hverjum mánuði eftir það, bætast við 4.100 kr. í greiðsluhámark. Ef það hámark er ekki fullnýtt í mánuðinum munu eftirstöðvar bætast við hámark næsta mánaðar og svo koll af kolli.

En eins og segir hér að ofan, þá verða heildargreiðslur almenns notanda yfir 12 mánaða tímabil aldrei hærri en 69.700 kr.

Börn, ellilífeyrisþegar og öryrkjar

Greiðslur barna, ellilífeyrisþega og öryrkja í nýju kerfi geta á 12 mánaða tímabili numið að hámarki 46.463 kr. en verða þó aldrei hærri en 16.400 kr. á mánuði. Ef mánaðarhámarki er náð mun einstaklingur ekki þurfa að greiða meira fyrir þjónustu það sem eftir lifir mánaðar. Í upphafi næsta mánaðar, og svo í hverjum mánuði eftir það, bætast við 2.733 kr. í greiðsluhámark. Ef það hámark er ekki fullnýtt í mánuðinum munu eftirstöðvar bætast við hámark næsta mánaðar og svo koll af kolli.

En eins og segir hér að ofan, þá verða heildargreiðslur barna, ellilífeyrisþega og öryrkja yfir 12 mánaða tímabil aldrei hærri en 46.463 kr.

Við útreikning á greiðsluþátttöku fólks fyrir heilbrigðisþjónustu þegar nýja greiðsluþátttökukerfið tók gildi var tekið mið af greiðslum fólks fyrir heilbrigðisþjónustu síðustu fimm mánuði fyrir gildistöku þess, þ.e. frá 1. desember til 30. apríl.

Hvernig virka tilvísanir fyrir börn?

Með nýja greiðsluþátttökukerfinu eru innleiddar tilvísanir fyrir börn í þeim tilgangi að draga úr heilbrigðisútgjöldum barnafjölskyldna, gera heilsugæsluna að fyrsta viðkomustað fólks í heilbrigðiskerfinu og sjá til þess að heilbrigðisþjónusta sé veitt á viðeigandi þjónustustigi.

Miðað er við að heilsugæslu- eða heimilislæknar sem starfa samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands, gefi út tilvísun telji þeir að barn sem kemur til þeirra þurfi á sérhæfðri þjónustu að halda á dag- eða göngudeildum sjúkrahúsa eða hjá sjálfstætt starfandi sérgreinalækni.

Barn með tilvísun þarf ekkert að greiða fyrir þjónustuna. Þetta á jafnt við um þjónustu sérgreinalækna á göngu- og dagdeildum sjúkrahúsa og þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna sem starfa samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands.

Barn með tilvísun þarf heldur ekki að greiða fyrir rannsóknir, geisla- og myndgreiningar sem viðkomandi sérgreinalæknir telur þörf á í tengslum við greiningu þess og meðferð.

Barn með tilvísun fyrir þjálfun, þ.e. sjúkra-, iðju-, eða talþjálfun þarf ekki að greiða fyrir þjónustu þessara aðila ef þeir starfa samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands.

Sem fyrr eru komur barna á slysa- og bráðamóttöku og til læknis á heilsugæslu þeim að kostnaðarlausu án tilvísunar.

Komur barna yngri en tveggja ára til sérgreinalækna eru án endurgjalds óháð tilvísun.

Fyrir þá notendur sem voru þegar komnir með afsláttarkort

Ef almennur notandi var búinn að vinna sér inn fyrir hámarksafslætti vegna fyrri greiðslna þegar hann sækir sér fyrst heilbrigðisþjónustu í nýju greiðsluþátttökukerfi, verður hámarksgreiðsla hans í maí 4.100 kr. Fyrir börn á aldrinum 2ja til 17 ára, öryrkja og ellilífeyrisþega er hámarksgreiðsla 2.733 kr.

Sá sem hafði áunnið sér fullan afslátt þegar nýja greiðsluþátttökukerfið tók gildi og þarf í hverjum mánuði að sækja sér heilbrigðisþjónustu sem veitir honum rétt á hámarksafslætti, greiðir á 12 mánaða tímabili að hámarki 49.200 kr. á ári.

Nánari upplýsingar um nýja kerfið má finna á vef Sjúkratrygginga Íslands, www.sjukra.is