Flensan að koma aftur upp - Ráðleggingar lækna

  • Published in Fréttir

89023924Inflúensa hefur nú gert vart við sig á ný og má gera ráð fyrir að tilfellum á HSS muni fjölga nokkuð næstu daga og vikur. Á vef Landlæknisembættisins segir að flensan sé af stofni sem leggist sérstaklega þungt á eldri borgara, sem er í samræmi við staðfest tilfelli hér á landi upp á síðkastið.

Að þessu tilefni er rétt að minna á leiðbeiningar sem læknar á HSS hafa tekið saman um varnir gegn inflúensusmiti:

Inflúensa lýsir sér oftast með háum hita og beinverkjum, oft með höfuðverk og þurrum hósta. Sumir fá einnig sára hálsbólgu og stundum eru til staðar einkenni frá meltingarfærum. Verstu einkennin ganga yfir á 2 til 3 sólarhringum og undantekningalítið jafnar fólk sig án nokkurra vandkvæða. Ekki er til lækning við inflúensu en almenn verkjalyf svo sem parasetamól og bólgueyðandi lyf svo sem íbúfen geta mildað einkenni mikið. Til eru veirulyf sem draga úr einkennum svo sem tamiflu og relenza, sérstaklega ef þau eru gefin strax en flestir jafna sig fljótt og vel án nokkurra inngripa og eru að fullu frískir á ca. viku.

Inflúensa er gríðarlega smitandi og því er áríðandi að fólk takmarki eins og unnt er samskipti við annað fólk meðan á veikindum stendur og gæti sérstaklega að handþvotti og öðru hreinlæti. Almennt er ráðlegt að halda sig heima við í að minnsta kosti viku í kringum einkenni, bæði til að ná að jafna sig og til að draga úr útbreiðslu flensunnar.


Aldrei er of seint fyrir fríska einstaklinga að bólusetja sig við inflúensu, bólusetningin minnkar líkur á smiti um ca. 60% og þeir sem eru bólusettir en veikjast fá yfirleitt mun vægari einkenni. Ekki er hægt að fá flensu gegnum bólusetningu.

Til að draga úr álagi á vaktþjónustu HSS og draga úr útbreiðslu smits er fólk beðið um að íhuga fyrrgreind atriði áður en leitað er til heilsugæslunnar. Með því að hringja í vaktsímann 1700 má fá ráðleggingar og aðstoð án þess að þurfa að mæta á staðinn.