Varúð
  • JUser: :_load: Unable to load user with ID: 982

Upplýsingar um röntgenrannsóknir, bæði almennar og TS (tölvusneiðmyndir)

Röntgenrannsóknir er samheiti yfir þær rannsóknir sem nota röntgengeisla til að skoða innri líffæri líkamans. Röntgengeislar eru mest notaðir til sjúkdómsgreininga og einnig í lækningaskyni gegn krabbameini.

Röntgengeislar eru ein tegund af rafsegulgeislun líkt og sýnilegt ljós. Þeir hafa hins vegar styttri bylgjulengd og hærri orku en sýnilegt ljós sem gerir þeim kleift að komast í gegnum líkamann.

Röntgenmyndir eru skuggamyndir af vefjum sem  röntgengeislarnir fara í gegnum. Eftir því sem vefirnir eru þéttari er erfiðara fyrir geislana að komast í gegn. Bein hleypa röntgengeislum illa í gegnum sig og eru því ljós á mynd en lungu eru full af lofti og hleypa þeim vel í gegn og eru því dökk á mynd.

Hin háa orka sem röntgengeislarnir búa yfir getur valdið vefjaskemmdum en þá þarf geislunin að vera mjög mikil og af allt annarri stærðargráðu en í venjulegum röntgenrannsóknum.  Vegna þessara áhrifa er ekki æskilegt fyrir þungaðar konur að fara í röntgenrannsókn vegna örrar frumuskiptingar fóstursins. Fyrir aðra en barnshafandi konur er hættan við röntgenrannsóknir langtum minni en sá ávinningur sem fæst með réttri sjúkdómsgeiningu.

Fyrir almennar röntgenrannsóknir á beinum og lungum er enginn undirbúningur. Við margar sérrannsóknir er ekki þörf á sérstökum undirbúningi nema þegar fasta þarf eða drekka skuggaefni.

Allar upplýsingar sem lúta að undirbúningi fyrir rannsóknir eru gefnar þegar tími er pantaður.

Röntgen- og tölvusneiðmyndarannsóknir eru framkvæmdar af geislafræðingum eða röntgenlæknum.

Sérhver rannsókn samanstendur yfirleitt af fyrirfram ákveðnum fjölda mynda. Stundum þarf að endurtaka myndir eða taka sérmyndir.

Við rannsóknir á meltingarvegi þarf oft að gefa skuggaefni sem sérstaklega er notað við rannsókn á smágirni og ristli. Stundum er notað skuggaefni í æð eingöngu en líka oft ásamt skuggaefni til drykkjar, til að greina betur líkamsvefi og þá einkum við ýmsar sérrannsóknir. Ofnæmisviðbrögð geta myndast við gjöf skuggaefnis og nauðsynlegt að upplýsa um þau hafi slíkt komið fyrir áður.  Skert nýrnastarfsemi og vissar tegundir sykursýkislyfja eru frábending við gjöf skuggaefnis.

Rannsóknartíminn getur verið mismunandi langur eftir því hvers eðlis rannsóknin er. Röntgenlæknir skoðar og metur rannsóknina. Niðurstöður eru sendar til þess læknis er bað um hana og berast þær yfirleitt innan þriggja daga frá því að rannsóknin var gerð.

Síðast uppfært mánudagur, 25 Maí 2015 12:28
Fleira í þessu flokki: « Þjónustudeildir Framkvæmdastjórn »