Upplýsingar um ómun

Röntgendeild HSS er hætt að vera með ómun en eftirfarandi upplýsingar geta nýst fólki sem er á leið í slíka rannsókn.

Ómun er rannsóknaraðferð sem notar hátíðnihljóðbylgjur til að búa til mynd af innri líffærum líkamans og er framkvæmd af röntgenlækni.  Þessar hljóðbylgjur eru skaðlausar og því má gera þær á barnshafandi konum.

Við skoðun er ómhöfði beint að því svæði sem rannsaka á.  Það gefur frá sér hljóðbylgjur sem sendar eru inn í líkamann.  Hljóðbylgjurnar endurkastast frá líffærunum eins og bergmál.  Ómhausinn  tekur á móti þessu bergmáli og tölva í ómtækinu býr til mynd sem hægt er að skoða á skjá um leið og verið er að rannsaka.

Fyrir rannsóknir af lifur,gallblöðru og brisi þarf að fasta í a.m.k. 4 klst. fyrir rannsókn, en það minnkar loft í þörmunum.  Líffærin sjást þá betur og nauðsynleg fylling fæst í gallblöðru.  Reykingar og notkun tyggigúmmís er heldur ekki æskileg. Við það myndast loft, rétt eins og þegar fæðu er neytt , sem hindrar sýn á líffærum.  Við skoðun á grindarholi er nauðsynlegt að vera með fulla þvagblöðru.  Annars er enginn sérstakur undirbúningur.

Ómun er óþægindalítil rannsókn.  Legið er á bekk og hlaupkennt vatnskrem er sett á rannsóknarsvæðið.  Kremið er sett til þess að brúa bilið á milli ómhaussins og líkamans því hljóðbylgjurnar sem eru notaðar geta ekki farið í gegnum loft.  Röntgenlæknir rennir hljóðgjafanum með hóflegum þrýstingi yfir líkamssvæðið sem rannsaka á.

Niðurstöður berast frá röntgenlækni innan þriggja daga frá rannsókn.

Síðast uppfært mánudagur, 25 Maí 2015 12:28