Sjúkrahús

Sjúkrahús (5)

Röntgendeild

CaptureRöntgendeild HSS sinnir öllum almennum röntgenrannsóknum og tölvusneiðmyndarannsóknum. Röntgendeildin þjónar öllum deildum spítalans, jafnt sem sjúklingum í eftirliti á vegum lækna þar og stofnana tengdum HSS og öðrum tilvísandi læknum.

Röntgenlæknar hjá Röntgen Domus (Læknisfræðilegri myndgreiningu ehf.) þjónusta HSS.

Almennur opnunartími deildarinnar og tímapantanir eru á virkum dögum frá klukkan 08:00 til 15:30.

Utan þess tíma er vaktþjónusta til miðnættis allan ársins hring.

Við deildina starfa fjórir geislafræðingar og einn geislaliði. Yfirgeislafræðingur er Jórunn J. Garðarsdóttir.

Sími í afgreiðslu deildarinnar er: 422-0506

Netfang : rontgen@hss.is

 

 

Röntgenrannsóknir

Við almennar röntgenrannsóknir er röntgengeisli notaður til að taka myndir af beinum líkamans, kviðarholi eða lungum.  Oftast eru teknar 2-4 myndir en fjöldi mynda fer eftir því hvað á að rannsaka.

Undirbúningur rannsóknar

Undirbúningur fyrir röntgenrannsókn felst fyrst og fremst í því að afklæðast ásamt því að fjarlægja skart og aðra fylgihluti sem skyggt geta á myndefnið og valdið myndgöllum.

Framkvæmd rannsóknar

 • Röntgenrannsóknir taka að jafnaði 10-30 mínútur
 • Geislafræðingar sjá um framkvæmd rannsóknarinnar
 • Eðli rannsóknarinnar stýrir því hvort mynd er tekin í standandi, sitjandi eða liggjandi stöðu
 • Geislafræðingar sjá um að stilla þér inn og gefa viðeigandi fyrirmæli, t.d. um öndun

Geislavarnir s.s. blýdúkar og svuntur eru notaðar eftir þörfum við röntgenmyndatökur en mikilvægasta geislavörnin felst í nákvæmum og réttum vinnubrögðum geislafræðinga.

Að rannsókn lokinni les röntgenlæknir úr myndunum og svar er sent til þess læknis sem óskaði eftir rannsókninni.

Ert þú barnshafandi?

Mikilvægt er að konur á barneignaraldri láti geislafræðing vita ef þær eru barnshafandi eða telja það mögulegt.

 • Forðast er að mynda barnshafandi konur nema brýna nauðsyn beri til og er þá sýnd sérstök aðgæsla m.t.t. geislavarna.  Reynt er eftir fremsta megni að velja aðrar rannsóknaraðferðir sé þess nokkur kostur.

 

Undirbúningur fyrir tölvusneiðmyndarannsókn

Undirbúningur veltur á því hvaða hluta líkamans á að rannsaka og hvaða spurningum á að svara.

 • Fyrir meltingafærarannsóknir þarf iðulega að drekka 700 ml af vatni á 30 mínútum fyrir rannsókn.
 • Oft þarf að gefa joðskuggaefni í æð við rannsókn

Joðskuggaefni

Joðskuggaefni er gefið í bláæð og er notað til að greina á milli líffæra, meta ástand þeirra og gera æðar sýnilegar á mynd.  Við skuggaefnisgjöf er eðlilegt að finna hitastraum frá brjósti og niður í þvagblöðru, tilfinningin líkist því að þvaglát eigi sér stað, og oft finnst vont bragð í munni. Þessi viðbrögð líða hratt hjá.  Einstaka sinnum kemur upp óþol eða ofnæmisviðbrögð fyrir skuggaefninu.

Ef þú ert með þekkt skuggaefnisofnæmi skaltu láta þann lækni sem óskaði eftir tölvusneiðmyndarannsókn vita af því en einnig getur þú haft samband við afgreiðslu myndgreiningardeildar eða látið geislafræðing vita af því fyrir rannsókn.  Mikilvægt er að láta vita af skuggaefnisofnæmi með fyrirvara svo sérstakur undirbúningur geti átt sér stað eða önnur rannsóknaraðferð orðið fyrir valinu. 

 • Sykursýkissjúklingar sem nota lyfin Glucophage, Glucovance eða Avandamet eiga að hætta inntöku lyfsins í tvo sólarhringa fyrir og eftir tölvusneiðmyndarannsókn með joðskuggaefni.

Mælt er með því að drukkið sé vel af vatni fyrstu klukkustundirnar eftir joðskuggaefnisgjöf.

Tímalengd rannsókna

 • Tölvusneiðmyndarannsókn tekur að jafnaði 10-20 mínútur
 • Að rannsókn lokinni les röntgenlæknir í Röntgen Domus Medica úr myndunum og svar er sent til þess læknis sem óskaði eftir rannsókninni.

Starfsemi rannsóknardeildar

Rannsoknarstofa1Sýni (blóð, þvag) eru mæld og skoðuð samdægurs eða send til frekari úrvinnslu annars staðar, svör geta því borist strax eða allt að viku seinna.

Flest svör frá sýklarannsóknum koma eftir einn eða tvo daga en ef  sýni eru send tekur það lengri tíma.

Upplýsingar um rannsóknaniðurstöður veitir sá læknir, sem ávísaði rannsókninni, annað hvort í símatíma eða eftir nánara samkomulagi. Blóðtökukerfið sem notað er á HSS við sýnatökur er frá VACCUETTE.

 

Á rannsóknastofu HSS eru framkvæmdar grundvallarrannsóknir á sviði:

Blóðfræði: þ.e. blóðkornarannsóknir, blóðstrok, vökvarannsóknir, storkurannsóknir, blóðgasmælingar.

Meinefnafræði: gerðar eru lífefnafræðilegar rannsóknir til greiningar á sjúkdómum, til mats á áhættu að fá sjúkdóma og til að fylgja eftir meðferð.

Sýklafræði: gerðar eru allar algengustu sýklaræktanir. Blóð- saur-  klamydiu og berklaræktanir eru sendar á Sýkladeild LSP v/Hringbraut.

Legudeild

altLegudeildin er staðsett á 2.hæð í D-álmu og AB álmu. Þar eru 31 rúm fyrir sjúklinga með vandamál á sviði hand-, lyf- og öldrunarlækninga.  Flestir leggjast  inn vegna bráðra veikinda. Einnig leggjast inn einstaklingar til endurhæfingar eftir skurðaðgerðir eða veikindi, sárameðferðar, vegna næringarvandamála, öldrunarvandamála, til líknandi meðferðar og einnig  koma einstaklingar í hvíldar- og endurhæfingarinnlagnir.  

Hlutverk deildarinnar er að sinna almennri og bráðri sjúkrahúsþjónustu fyrir íbúa svæðisins, þar sem lögð er áhersla á að veita bestu mögulega þjónustu.

Sjúkraþjálfun

Starfsemi sjúkraþjálfunar hófst á HSS með reglubundnum hætti árið 1998 og hefur hún að mestu sinnt sjúkrahússviði HSS, þ.e. A- og D-deildum auk fæðingardeildar og Víðihlíðar í Grindavík. Einnig hafa sjúkraþjálfarar sinnt göngudeildarþjónustu gegn framvísun beiðni um þjálfun frá lækni.

Starfsemi fer fram alla virka daga frá klukkan 8:00-16:00. Sjúkraþjálfun staðsett í D-álmu. Nú eru starfandi þrír sjúkraþjálfarar hjá HSS.

Markmið sjúkraþjálfunar á HSS

Yfirsjúkraþjálfari er Sara Guðmundsdóttir

Áhugaverðar síður:

Markmið sjúkraþjálfunar á HSS

Markmið sjúkraþjálfunar á HSS:

 • Að veita skjólstæðingum sjúkraþjálfunar viðeigandi þjálfun, fræðslu og ráðgjöf með það að markmiði að auka eða viðhalda líkamlegri, andlegri og félagslegri getu þeirra á meðan legu þeirra stendur yfir.
 • Að auka eða viðhalda færni og hreyfigetu skjólstæðinga okkar og auðvelda þeim að takast á við hið daglega líf er sjúkrahúsvist lýkur.
 • Veita starfsmönnum HSS fræðslu og ráðgjöf hvað varðar vinnuvistfræði.

Subscribe to this RSS feed