Kvíði og jarðskjálfti

föstudagur, 12. mars 2021
Kvíði og jarðskjálfti
Óttar Birgisson
deildarstjóri sálfélaglegrar þjónustu HSS

Þessa dagana eru íbúar á Reykjanesi reglulega minntir á hversu megnugir kraftar jarðar geta verið með daglegum jarðskjálftum. Jarðskjálftar eru óútreiknanlegir og því alltaf einhver möguleiki að þeir geti verið hættulegir. Þegar við stöndum frammi fyrir mögulegri hættu er eðlilegt að upplifa kvíða. En hvað er kvíði?

Kvíði er kerfi í líkamanum sem sér til þess að við erum meira tilbúin til að takast á við einhverja ógn eða áskorun. Ef við stöndum frammi fyrir einhverri ógn eða áskorun, fara lífeðlisleg ferli af stað til vonar og vara til að gera okkur tilbúin að bregðast við hratt og örugglega. Þetta lífeðlislega ferli er stundum kallað óttaflóttakerfið eða „fight or flight“ á ensku. Því upplifum við einkenni eins og hraðan hjartslátt, grynnri öndun, spennta vöðva, ónot í maga og fleira. En öll þessi einkenni miða að því að gera okkur tilbúin að hlaupa í burtu frá ógn eða takast á við hana ef hún raungerist. Með öðrum orðum, þegar við upplifum kvíðaeinkenni þá er líkaminn að virka eins og hann á að virka. Að því sögðu er fullkomlega eðlilegt að kerfið fari í gang þegar við heyrum djúpa drunu undir fótum okkar eða upplifum skjálfta í umhverfi okkar. Þetta er bara líkaminn að segja: „Ég er að undirbúa mig til að bregðast við ef eitthvað hættulegt gerist“. Þannig safnast upp ákveðin spenna í líkamanum og fólk upplifir það sem kvíða.

En þó að kvíði sé eðlileg tilfinning í þessum aðstæðum, þá getur kvíði verið óþægilegur. En munum að þó að hann sé óþægilegur er hann aldrei hættulegur. En hvað er þá hægt að gera þegar við upplifum kvíða vegna jarðskjálfta?

Verum óhrædd við að tala við vini og vandamenn um hvernig okkur líður og ræða jarðskjálftana. Það eitt getur sett hlutina í samhengi og kvíðakerfið róast.

Ef þú upplifir mjög mikinn kvíða, ekki reyna þá að fylgjast stöðugt með skjálftum. Ekki sitja kyrr og reyna að finna fyrir skjálftunum. Slíkt eykur kvíða. Ekki heldur vera mikið að lesa þig til um jarðskjálfta og fréttir um þá til að reyna að eyða óvissu um þá. Jarðskjálftar koma ef þeir koma og við verðum jafntilbúin hvort sem við liggjum yfir fréttum eða ekki. Reyndu aftur að færa athyglina á eitthvað annað og haltu áfram með dagleg störf.

Treystum fagfólki. Á Íslandi er mikil þekking í jarðfræði og skyldum greinum. Margir fagaðilar standa vaktina og láta okkur vita ef við þurfum að bregðast við. Eins og staðan er núna er nóg að passa að það séu ekki þungir hlutir í hillum sem geta dottið og er fólk hvatt til að vera ekki undir fjallshlíðum þar sem grjóthrun gæti átt sér stað. Ef hættumat breytist mun það ekki fara fram hjá þér og þú þarft ekki að leita það uppi á fréttamiðlum.

Að lokum, munum að þetta er eðlileg tilfinning og gengur yfirleitt yfir um leið og athyglin fer á eitthvað annað. Reyndu því að halda áfram með dagleg störf og það sem þú hafðir fyrir stafni áður en þú fannst fyrir þessum kvíðaeinkennum.

Óttar Birgisson
Deildarstjóri sálfélagslegrar þjónustu á HSS

Aðalnúmer

422-0500

Grindavík

422-0750

Vaktsími eftir lokun

1700

Neyðarnúmer

112