Afhenti Víðihlíð borðfána úr smiðju föður síns

mánudagur, 30. desember 2019
Afhenti Víðihlíð borðfána úr smiðju föður síns

>Ingibjörg Þorsteinsdóttir sjúkraliði í Njarðvík kom og færði Hjúkrunarheimilinu Víðihlíð í Grindavík góða gjöf á dögunum. Um er að ræða íslenska fána á íslensku grjóti sem faðir hennar, Þorsteinn Marinósson, 85 ára búsettur á Akureyri, gerði.

Þorsteinn hefur í gegnum árin týnt íslenskt grjót á húsbílaferðum sínum um landið og búið til kertastjaka, servíettustanda og fánastangir úr grjótinu og er búinn að gefa Hlíð og Lögmannshlíð á Akureyri svona fána, einnig öllum Hrafnistuheimilunum á landinu og nú er komið að Víðihlíð.

Þorsteinn gerði einnig kross á leiði konu sinnar Fjólu Kristínar Jóhannsdóttur sem lést úr krabbameini 1990 aðeins 52 ára og er myndin hér neðst af Þorsteini, tekin við leiði hennar.

 

Bróðir Fjólu heitinnar, og mágur Þorsteins, er Reynir Jóhannsson skipstjóri í Grindavík svo að tengsl Þorsteins við Grindavík eru nokkur, einnig er Ingibjörg í mótorhjólaklúbbnum Grindjánar í Grindavík.

Á myndunum má sjá fánana góðu og Ingibjörgu með Ingibjörgu Þórðardóttur, deildarstjóra Víðihlíðar.