Bókanir hafnar fyrir inflúensubólusetningar Prentvæn útgáfa
Laugardagur, 17. september 2016 14:42

sn-vaccineH

Bókanir eru hafnar í bólusetningu fyrir inflúensu á HSS.

Inflúensan er nokkuð fyrr á ferð en vanalega. Jafnan hafa bólusetningar hafist í október, en nú hafa þegar greinst nokkur tilvik á landinu.

Fram kemur á vef landlæknisembættisins að bóluefnið í ár innihaldi vörn gegn svínainflúensunni sem gekk hér 2009–2010 og að auki vörn gegn inflúensu af stofni H3N2 og inflúensu B.

 • Sóttvarnalæknir mælist til að eftirtaldir áhættuhópar njóti forgangs við inflúensubólusetningar:
 • Allir einstaklingar 60 ára og eldri.
 • Öll börn og fullorðnir sem þjást af langvinnum hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdómum, sykursýki, illkynja sjúkdómum og öðrum ónæmisbælandi sjúkdómum.
 • Heilbrigðisstarfsmenn sem annast einstaklinga í áhættuhópum sem taldir eru upp hér að ofan.
 • Þungaðar konur.

Hægt er að bóka tíma í bólusetningu á HSS með því að hringja í móttöku HSS, í síma 422-0500, milli kl. 8 og 16 virka daga.

Inflúensa getur verið skæður sjúkdómur, einkum hjá fólki með undirliggjandi sjúkdóma og hefur sóttvarnalæknir áður hvatt þá sem eru í þeim áhættuhópi til að láta bólusetja sig.

Læknar HSS hafa tekið saman þessar ábendingar:

Inflúensa lýsir sér oftast með háum hita og beinverkjum, oft með höfuðverk og þurrum hósta. Sumir fá einnig sára hálsbólgu og stundum eru til staðar einkenni frá meltingarfærum. Verstu einkennin ganga yfir á 2 til 3 sólarhringum og undantekningalítið jafnar fólk sig án nokkurra vandkvæða. Ekki er til lækning við inflúensu en almenn verkjalyf svo sem parasetamól og bólgueyðandi lyf svo sem íbúfen geta mildað einkenni mikið. Til eru veirulyf sem draga úr einkennum svo sem tamiflu og relenza, sérstaklega ef þau eru gefin strax en flestir jafna sig fljótt og vel án nokkurra inngripa og eru að fullu frískir á ca. viku.

Inflúensa er gríðarlega smitandi og því er áríðandi að fólk takmarki eins og unnt er samskipti við annað fólk meðan á veikindum stendur og gæti sérstaklega að handþvotti og öðru hreinlæti. Almennt er ráðlegt að halda sig heima við í að minnsta kosti viku í kringum einkenni, bæði til að ná að jafna sig og til að draga úr útbreiðslu flensunnar.

Aldrei er of seint fyrir fríska einstaklinga að bólusetja sig við inflúensu, bólusetningin minnkar líkur á smiti um ca. 60% og þeir sem eru bólusettir en veikjast fá yfirleitt mun vægari einkenni. Ekki er hægt að fá flensu gegnum bólusetningu.

Til að draga úr álagi á vaktþjónustu HSS og draga úr útbreiðslu smits biðjum við fólk að íhuga fyrrgreind atriði áður en leitað er til heilsugæslunnar. Símaþjónusta HSS (422-0500) er ávallt boðin og búin að veita ráðleggingar og aðstoða fólk án þess að það komi á staðinn.

 
Laus staða yfirsálfræðings á HSS Prentvæn útgáfa
Fimmtudagur, 15. september 2016 11:40

Laus er til umsóknar allt að 100% staða yfirsálfræðings við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.  Um er að ræða nýja stöðu og spennandi tækifæri við mótun sálfræðiþjónustu á göngudeild fyrir börn og fullorðna.

Helstu verkefni og ábyrgð:
Yfirsálfræðingur er yfirmaður forvarnar- og meðferðarteymis barna og geðteymis fullorðinna á HSS.  Hann hefur umsjón með sálfræðiteymunum og þjónustu þeirra.  Hann ber ábyrgð á faglegri stjórnun og handleiðslu sálfræðinga í klínískri vinnu með börnum og fullorðnum.  Hann kemur að sálfræðilegri greiningu og meðferð skjólstæðinga.  Jafnframt sér hann um tiltekna þætti starfsmannaumsjónar. Hann ber ábyrgð á gæða- og verklagsstarfi, stefnumótun og framtíðarsýn varðandi þjónustu sálfræðinga.  Yfirsálfræðingur er tengiliður við samstarfsaðila þjónustunnar.

Hæfniskröfur:

 • Skilyrði er að viðkomandi hafi fullgild réttindi til starfa sem sálfræðingur á Íslandi.   
 • Umsækjandi þarf að hafa góða þekkingu og víðtæka reynslu af greiningu geðraskana og gagnreyndum meðferðum. 
 • Lögð er áhersla á jákvætt viðhorf og áhuga á fjölbreyttum, krefjandi verkefnum. 
 • Lögð er áhersla á frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum og framúrskarandi hæfileika á sviði samskipta og samvinnu.  
 • Æskilegt er að umsækjandi hafi reynslu af þverfaglegri teymisvinnu, handleiðslu og stjórnun.  
 • Áhugi og geta til rannsóknarvinnu er kostur.

Frekari upplýsingar um starfið:
Um er ræða  framtíðarstarf og æskilegt er að umsækjandi geti hafið störf sem fyrst.
Laun eru samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra og hlutaðeigandi stéttarfélags.
Sótt er um starfið rafrænt á vef HSS undir „Laus störf".

Umsóknarfrestur er til og með 3. október 2016.

Öllum umsóknum verður svarað.

Nánari upplýsingar veita:
Snorri Björnsson, yfirlæknir heilsugæslu í síma 422-0500 eða í gegnum netfangið Þetta tölvupóstfang er varið gegn ruslpóstsþjörkum, Þú verður að hafa JavaScript virkt til að sjá það.
Margrét Geirsdóttir, heimilislæknir og teymisstjóri geðteymis í síma 422-0500.

 
<< Fyrsta < Fyrri 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 Næsta > Síðasta >>

Ertu ánægð/ur með vef HSS?
 
Hversu oft heimsækir þú vef HSS?
 

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja | Skólavegi 6, 230 Reykjanesbæ | Kt: 511297-2819 |·S: 422-0500 Fax:421-2400 | www.hss.is | hss@hss.is